Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 28 . mál.


Nd.

795. Breytingartillögur



við frv. til l. um mannanöfn.

Frá menntamálanefnd.



     3. mgr. 7. gr. orðist svo:
                   Dómsmálaráðuneyti er heimilt að leyfa manni nafnbreytingu, þar með talið að taka annað eiginnafn til viðbótar því sem hann ber, ef telja verður að gildar ástæður mæli með því. Beri forsjármaður barns fram ósk um breytingu á nafni þess samkvæmt þessari eða 2. mgr. og hafi orðið breyting á forsjánni frá því barninu var gefið nafn skal, ef unnt er, leita samþykkis þess foreldris sem með forsjána fór við fyrri nafngjöf áður en ákvörðun er tekin um nafnbreytingu. Þótt samþykki þess foreldris liggi ekki fyrir getur ráðuneytið engu að síður heimilað nafnbreytingu ef hagsmunir barns eða sérstakar ástæður mæla með því. Breytingar samkvæmt þessari málsgrein má aðeins heimila einu sinni nema sérstaklega standi á.
     2. mgr. 12. gr. orðist svo:
                   Heimilt er með leyfi dómsmálaráðuneytis að feðrað barn sé kennt til stjúpforeldris. Beiðni um breytingu á kenninafni skal undirrituð af kynforeldri, sem fer með forsjá barnsins, og stjúpforeldri. Leita skal samþykkis þess kynforeldris sem ekki fer með forsjá barnins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi. Nú er kynforeldri ekki samþykkt breytingu á kenninafni og getur dómsmálaráðuneyti þá engu að síður leyft breytinguna ef sérstaklega stendur á og talið verður að breytingin sé barninu til verulegs hagræðis.
     Við 16. gr. Orðin „kenninafn hans sé honum til ama eða aðrar“ falli brott.
     1. mgr. 23. gr. orðist svo:
                   Sé barni ekki gefið nafn innan þess tíma sem um getur í 2. mgr. 4. gr. skal Hagstofa Íslands, þjóðskrá, vekja athygli forsjármanna barnsins á þessu ákvæði laganna og skora á þá að gefa barninu nafn án tafar. Sinni forsjármenn ekki þessari áskorun innan eins mánaðar og tilgreini ekki gildar ástæður fyrir drætti á nafngjöf er Hagstofu Íslands heimilt, að undangenginni ítrekaði skriflegri áskorun, að leggja dagsektir allt að 1.000 kr. á forsjármenn barns og falla þær á þar til barni er gefið nafn. Hámarksfjárhæð dagsekta miðast við lánskjaravísitölu í janúar 1991 og breytist í samræmi við breytingar hennar. Dagsektir renna í ríkissjóð og má gera aðför til fullnustu þeirra.
     Á eftir 23. gr. komi ný grein er orðist svo:
                   Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við önnur ríki um mörkin milli íslenskrar og erlendrar mannanafnalöggjafar.
                   Dómsmálaráðherra er enn fremur heimilt að kveða á með reglugerð um mörkin milli íslenskrar löggjafar um mannanöfn og löggjafar annarra Norðurlandaþjóða á því sviði.